3. fundur
Íslandsdeildar Norðurlandaráðs á 149. löggjafarþingi
haldinn í Austurstræti 8-10, föstudaginn 7. desember 2018 kl. 08:00


Mættir:


Nefndarritari: Helgi Þorsteinsson

Bókað:

1) Fundur forsætisnefndar Norðurlandaráðs í Finnlandi 10.-11. desember 2018 Kl. 14:57
Oddný G. Harðardóttir, starfandi formaður, sagði frá helstu málum sem verða á dagskrá fundar forsætisnefndar Norðurlandaráðs 10.-11. desember í menningarmiðstöðinni Hanaholmen í Espoo í Finnlandi. Hún sagði einnig frá námsstefnu um öryggismál sem haldin verður 11. desember á sama stað og árlegum fundi forsætisnefndar Norðurlandaráðs með forsætisnefnd Eystrasaltsþingsins sem einnig verður haldinn þann dag.

Á fundi forsætisnefndarinnar verður meðal annars rætt um fjárhagsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar fyrir árið 2020. Norðurlandaráð óskar eftir að hafa meiri áhrif en áður á skiptingu fjárveitinga til norræns samstarfs. Íslandsdeild Norðurlandaráðs ákvað í tengslum við mótun fjárhagsáætlunarinnar fyrir árið 2020 að leggja áherslu á að tryggja fjárveitingar til þeirra fjögurra rannsóknarstofnana, þar á meðal Norrænu eldfjallastöðvarinnar, sem Norræna ráðherranefndin hefur rætt um að hætta að fjármagna. Jafnfram vill Íslandsdeild Norðurlandaráðs tryggja og auk stuðning við norrænna samstarfsverkefni sem fela í sér bein tengsl við og hagnýta þýðingu fyrir almenning á Norðurlöndum, til dæmis Nordjobb-verkefnið, upplýsingaþjónustuna Halló Norðurlönd og Norden i Skolen-vefgáttina.

2) Nordjobb Kl. 15:02
Valdís Ösp Árnadóttir, starfsmaður upplýsingaþjónustu Halló Norðurlanda, var fulltrúi Norræna félagsins á fundinum í fjarveru Ásdísar Evu Hannesdóttur framkvæmdastjóra og Boga Ágústsson formanns Norræna félagsins.

Valdís Ösp sagði frá Nordjobb-verkefninu og þróun þess síðustu árin en fjöldi þátttakenda frá Íslandi hefur dregist saman af ýmsum ástæðum. Ein ástæðan virðist vera að kunnátta Íslendinga í skandinavískum málum er minni en áður var. Íslandsdeild ákvað að tillögu Kolbeins Óttarssonar Proppé að fela ritara að safna saman gögnum um stöðu skandinavísku málanna á Íslandi og fá gesti á fund deildarinnar til að segja frá stöðu dönskunnar í menntakerfinu.

Stuðningur við Nordjobb-verkefnið hefur komið frá Norrænu ráðherranefndinni, velferðarráðuneytinu og Letterstedska föreningen. Enginn styrkur hefur fengist frá velferðarráðuneytinu frá árinu 2016. Íslandsdeild Norðurlandaráð ákvað að skoða það mál betur.

3) Ráðgjafarnefnd um stjórnsýsluhindranir Kl. 15:02
Vilhjálmur Árnason sagði frá þingsályktunartillögunni sem hann hefur unnið að með góðri aðstoð Sivjar Friðleifsdóttur, fulltrúa Íslands í Norræna stjórnsýsluhindranaráðsins. Íslandsdeild samþykkti að fela Vilhjálmi að vinna áfram að tillögunni en undirstrikað var að mikilvægt væri að hafa samráð við forsætisráðuneytið varðandi orðalag um samsetningu nefndarinnar og verkefni. Einnig var ákveðið að fela ritara að kanna hvort forsætisráðuneytið hefði þegar brugðist við tilmælum Norðurlandaráðs um skipan slíkrar nefndar. Ritara var einnig falið að leita upplýsinga um það hvort liðurinn „Áhrif á möguleika einstaklinga og fyrirtækja til að eiga samskipti þvert á norræn landamæri“ í gátlisti vegna mats á áhrifum lagasetningar sem forsætisráðuneytið gaf út 10. mars 2017 hefur tilætluð áhrif og hvernig unnið er með hann í ráðuneytunum.

4) Heimsending Íslendinga frá Danmörku Kl. 15:04
Oddný G. Harðardóttur, starfandi formanni, var að eigin tillögu falið að gera drög að fyrirspurn sem beint verður til til dönsku ríkisstjórnarinnar á vettvangi Norðurlandaráðs til að kanna umfang heimsendinga Íslendinga frá Danmörku og fá skýringar á þeim.

5) Fundur stjórnar Norræna menningarsjóðsins 29-30. nóvember 2018 Kl. 15:05
Steinunn Þóra Árnadóttir sagði meðal annars frá umræðum sem farið hafa fram á fundum Norræna menningarsjóðsins um kynjaskiptingu i stjórn sjóðsins og almennt á vettvangi norræns menningarsamtarfs. Steinunn Þóra er eina konan í stjórn sjóðsins. Löndin hafa verið beðin um að huga sérstaklega að kynjaskiptingu framvegis.

6) Norræn námsstefna um málefni fatlaðs fólks 19. nóvember 2018 Kl. 15:05
Upplýsingar færðar til bókar.

Fundi slitið kl. 09:00